news

Dagur leikskólans 2020

06. 02. 2020

Í tilefni af degi leikskólans langar mig að koma á framfæri nokkrum staðreyndum sem sýna mikilvægi þess að búa sem best að málefnum leikskólans. Fyrstu ár ævinnar er grunnur lagður að öllum þroska sem á eftir kemur. Breytingarnar á þroska barna á leikskólaaldri eru meiri en á nokkrum öðrum tíma síðar á lífsleiðinni. Framfarir í hreyfiþroska, málþroska og tilfinningaþroska haldast í hendur við heilaþroska og annan líkamlegan þroska. Nýlegar langtímasamanburðarrannsóknir hafa endurtekið sýnt fram á að vel skipulögð leikskólamenntun hefur margvísleg jákvæð áhrif á líf fólks til langframa. Má þar nefna betri námsárangur og minni líkur á hegðunarerfiðleikum eða sértækum námsstuðningi síðar meir. Sem fullorðið fólk er líklegra að fólk, sem fengið hefur vel skipulagða leikskólamenntun, hafi lagt stund á framhaldsnám að lokinni skólaskyldu og sé í vinnu. Rannsóknir sem rýnt hafa í kostnað við leikskólamenntun sýna að hver króna sem lögð er í leikskólamenntun skilar sér ríkulega til baka til samfélagsins. Jafnframt hefur verið sýnt fram á að sá hópur sem græðir mest á góðri leikskólamenntun eru fjölskyldur sem glíma við félagslegar áskoranir. Því skýtur það skökku við að leikskólaganga sé jafn dýr og raun ber vitni í mörgum sveitarfélögum á Íslandi. Í nýlegum samanburði á almennum leikskólagjöldum á vegum Alþýðusambands Íslands (sjá nánar á asi.is) kemur í ljós að Fljótsdalshérað er meðal þeirra sveitarfélaga sem eru með hvað hæstu leikskólagjöldin. Lækkun leikskólagjalda ásamt aukinni fagþekkingu og bættum starfskjörum starfsfólks í leikskólum er ein skynsamlegasta fjárfesting sem nokkurt samfélag getur lagt í. Slík fjárfesting eykur bæði jöfnuð og lífsgæði allra til lengri tíma. Umgjörð leikskólamenntunar skiptir einnig máli. Nú hillir undir að hafin verið smíði á nýjum leikskóla í Fellabæ. Undirbúningur við hönnun og skipulag er hafinn og samráð og samstarf við fulltrúa starfsfólks og foreldra bera vott um skýran vilja sveitarfélagsins að vandað verði til verka og því ber að fagna. Að lokum vil ég fyrir hönd foreldraráðs Hádegishöfða óska öllum leikskólabörnum, starfsfólki leikskóla og foreldrum leikskólabarna til hamingju með dag leikskólans 2020.

Kristján Ketill Stefánsson,

foreldraráði Hádegishöfða

© 2016 - 2020 Karellen